App um útilistaverk í Reykjavík

Listasafn Reykjavíkur gaf út appið Útilistaverk í Reykjavík (Reykjavík Art Walk) árið 2019, á ári útilistaverka í safninu, með upplýsingum um öll útilistaverk í Reykjavík sem eru um tvö hundruð talsins. Í appinu eru einnig hljóðleiðsagnir fyrir göngu- og hjólatúra og skemmtilegur leikur í þremur þyngdarstigum. Það er því tilvalið til skemmtunar og fróðleiks bæði inni og úti. Appið er bæði fyrir iphone og Android stýrikerfi og er bæði hægt að hlaða niður á íslensku og ensku.

Sæktu smáforritið hér fyrir iPhone eða Android stýrikerfi:

Fræðslumyndband um Erró

Í tilefni af sýningunni Sæborg útbjó Listasafn Reykjavíkur þetta flott fræðslumyndband um Erró.

Hér er farið yfir sýninguna Sæborg sem tengist vísindaskáldskap, aðferðafræði myndlistarmannsins, klippimyndagerðina, hugmyndafræði listamannsins og fleira.

33 skemmtileg sönglög

Í tilefni samkomubanns hafa tónmenntakennarar ákveðið að standa fyrir samsöng á netinu. Nú er búið að taka upp 33 myndbönd með skemmtilegum lögum með söng og undirspili frá fjórum tónmenntakennurum. Öll lögin má finna hér fyrir neðan en einnig er hægt að finna lög eftir hvern kennara saman á Vimeo-síðu. Kennararnir sem tekið hafa upp lög eru Harpa Þorvaldsdóttir í Laugarnesskóla, Björg Þórsdóttir í Ísaksskóla, Valgerður Jónsdóttir í Grundaskóla, Nanna Hlíf Ingvadóttir í Landakotsskóla, Fjóla og Elfa í Langsholtsskóla, Ása Valgerður  tónmenntakennari og kórstjóri auk nemenda í Háteigsskóla v/Hvassaleiti.

Tónmennt á tölvu

Kynning á forritum sem má nota til þess að læra og æfa ýmislegt sem snýr að tónlist
Einnig verða sett inn verkefni og hugmyndir að leikjum sem þjálfa tónheyrn og efla tónsköpun

Quick, Draw!

Leikur með gervigriend. Þú teiknar og kerfið reynir að giska á hvað þú ert að teikna. Auðvitað virkar það ekki alltaf en því meira sem þú leikur þér að því, því meira lærir kerfið.

List fyrir alla

List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á menningu fyrir börn og menningu með börnum.

Úti í Gróttu: Námsefni í sjónlistum

Úti í Gróttu er verkefnabanki í sjónlistum unninn fyrir Seltjarnarnesbæ með styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna. Verkefnið þróaðist út frá námskeiði í kennslufræði í Listaháskóla Íslands. Námsvefurinn er verkefnabanki sem er hugsaður sem efni sem kennarar geta notað, stuðst við og aðlagað eigin kennslu.

Verkefnin tengjast kennileitum og húsum á Gróttusvæði á Seltjarnarnesi. Hver staður hefur sína síðu þar sem hægt er að skoða fræðsluefni og hlaða niður verkefnum tengd hverjum stað. Verkefnin eru aldursskipt í yngri hóp og eldri hóp. Verkefnið var unnið sumarið 2020 og er í þróun. Stefnt er að því að móta listasmiðjur út frá námsefninu.

Draumaþjófurinn

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson samdi fjölda bráðskemmtilegra nýrra laga fyrir Draumaþjófinn, sem hafa mörg hver orðið afar vinsæl. Skólunum gefst nú færi á að nýta þessa nýju íslensku barnatónlist í starfi sínu, en þeir fengu sendan undirleik og nótur úr Draumaþjófnum, auk þess sem tónlistin er aðgengileg á Spotify og söngtextarnir á vef Þjóðleikhússins.

Efnið var sent til menntastofnana sem sinna börnum á aldrinum 3-15 ára og hefur sendingunni verið tekið tveim höndum. M.a. vilja grunnskólar nýta efnið  í leiklistarvali, tónlistarskólar gleðjast yfir af fá brakandi ferskar nótur í byrjun árs og dansskólarnir hafa þakkað fyrir frábæra gjöf.

Sýningin Draumaþjófurinn var frumsýnd síðasta vor. Hún sló rækilega í gegn og verður áfram sýnd á komandi leikári. Sýningin var valin Barnasýning ársins bæði á Grímunni og á Sögum – Verðlaunahátíð barnanna.

Hér er hlekkur þar sem má finna námsefnispakkann, en þessi hlekkur verður opinn öllum landsmönnum til að nálgast efnið og hafa gagn og gaman af.