Lesblinda: Heimildamynd

Heimildamyndin Lesblinda er fróðleg og hvetjandi fyrir alla sem glíma við lesblindu eða lestrarörðugleika. Tilgangur hennar er að vekja umræðu um lesblindu og þau úrræði sem standa til boða og mikilvægi þrautseigjunnar fyrir persónulegan árangur í námi. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir gerð myndarinnar og hefur tryggt skólum aðgengi að henni.

Myndin er framleidd af SagaFilm en höfundur hennar er Sylvía Erla Melsted, söngkona og frumkvöðull.

Margt hefur áunnist í málefnum lesblindra á undanförnum árum en boðskapur myndarinnar er meðal annars sá að samfélagið og þar með atvinnulífið fagni í meira mæli styrkleikum og hæfileikum allra – ekki síst lesblindra, því greind og virði fólks ræðst ekki af getu þess í bóknámi.