Rísa hárin á höfði þér eða færðu gæsahúð af spenningi þegar þú lest sumar bækur?
Kannski er það dálítið dramatísk lýsing en engu að síður þá sækjumst við mörg í spennandi bækur – þær kveikja áhuga okkar.
Í seinni tíð hefur orðið algengara að Íslendingar haldi hrekkjavöku hátíðlega. Líklega er það ekki síst vegna áhrifa frá bandarísku sjónvarpi og kvikmyndum. Á Íslandi hafa ýmsar norrænar hefðir þó einnig verið í hávegum hafðar í gegnum tíðina er minna á hrekkjavöku. Til forna var haldin hátíð í lok október sem kölluð var veturnætur. Veturnætur eru tíminn þegar styst er á milli heima og ýmsir andar á flakki. Þá var líka tíminn til að minnast forfeðra og -mæðra og tengjast þeim á andlega sviðinu sem og vættum. Á Norðurlöndum var haldið dísablót. Minnst er á dísablót í Heimskringlu og Egils sögu. Þar eru dísir blótaðar, kallaðar að eldinum og minnt á tilveru þeirra í náttúrunni. Dísir eru því eiginlega tákn náttúruvætta og þær beðnar um grið fyrir náttúrunni. Dísablót eru haldin að hausti sem er tími kvenaflanna. Oft eru dísir og nornir blótaðar saman. Nú eru dísir ekki beint tengdar hrekkjavöku en það eru dauðar sálir hins vegar. Í heiðnum trúarbrögðum þar sem blót og eldathafnir eru haldnar eru dísir vættir, ekki afturgöngur. Veturnætur eru annað en dísablót og hrekkjavaka þótt þetta sé á sama árstíma.
Í tilefni hrekkjavökunnar viljum við benda á eftirfarandi bækur sem vekja lukku hjá þeim sem sækjast eftir smá spennu:
Yngsta- og miðstig
Skrímslið í skóginum
Ísold, Steina og Þór lenda í kapphlaupi við tímann.
Geta þau bjargað vini sínum Gulla áður en ský dregur fyrir tungl og hann breytist í skrímsli…að eilífu?
Galdraskólinn
Katja fær óvænt boð um skólavist í galdraskóla og heldur glöð og spennt á heimavistina að Saurbæ.
En galdranámið er erfiðara en hún átti von á og í skólanum lendir Katja í ýmsum spennandi ævintýrum.
Vélmennið í grasinu
Í þessari sögu fylgist þú með Þóru sem fer í sumarfrí til pabba síns austur á Seyðisfjörð.
Aftast í bókinni eru fróðleiksmolar um vélmenni.
Miðstig
Varúð hér býr…vampíra
Kötturinn Hvæsi sleppur inn í dularfullt gamalt hús í bænum. Marta og Marius fylgja á eftir til að reyna að ná honum út.
Þau vita ekki hvað bíður þeirra bak við lokaðar dyrnar.
Varúð hér býr…umskiptingur
Marta og Marius eru bestu vinir og hafa lent í ótal ævintýrum saman. Dag einn byrjar Marius að haga sér undarlega. Hann er óvenju úfinn og uppstökkur og kemur illa fram við Þór, litla bróður sinn. Brátt fer Mörtu að gruna að eitthvað dularfullt sé á seyði. Sagan berst út í hraun þar sem furðulegir atburðir gerast.
Verður Marius fangi í hraunklettinum það sem eftir er?
Varúð hér býr…norn
Marta og Marius lenda í nýju ævintýri þegar kötturinn Hvæsi sleppur út og hverfur inn í þéttan þyrnirunna.
Galdrar, þulur og göróttir drykkir bíða bak við luktar dyr og krakkarnir vita ekki hvort þau komast aftur heim heil á húfi.
Varúð hér býr…jötunn
Marius og Marta lenda í nýju ævintýri þegar Marta, kötturinn Hvæsi og Þór litli bróðir Mariusar detta niður um sprungu. Hvað verður um krakkana þegar þau mæta slímugum pöddum, risavöxnum leirþurs og slefandi jötunynju?
Munu þau snúa heil heim aftur?
Varúð hér býr…varúlfur
Hvæsi þarf að fara í skoðun hjá nýja dýralækninum. Það verður til þess að spennandi atburðir fara að gerast. Mamma Mörtu er ólík sjálfri sér á fullu tungli og þarf virkilega aðstoð Mörtu og Maríusar að halda. Munu þau sleppa heil á húfi úr þessum hremmingum?
Hvað veit Hvæsi sem þau hin vita ekki?
Unglingastig
Það kom að norðan
Ísjaka rekur að landi í lok sumars í litlu sjávarþorpi fyrir norðan. Í ísnum leynist eitthvað hræðilegt og fyrr en varir er allt landið í hættu.
Ekkert verður sem áður.
Draugaljósið
Dularfullt ljós birtist í hálfbyggðu húsi í nágrenni Hallfríðar. Hún fær besta vin sinn til að koma með sér og rannsaka málið.
Hvað leynist í dimmum kjallaranum?
Baskerville hundurinn
Sherlock Holmes og Watson læknir standa frammi fyrir óhugnanlegri og flókinni ráðgátu þegar Charles Baskerville finnst látinn með andlitið afmyndað af skelfingu. Hræðileg skepna leikur lausum hala á Dartmoor heiðum.
Hver er hávaxni, dularfulli maðurinn sem sést ráfa um heiðarnar að næturlagi?